fbpx

Edda Arndal, MA

Geðhjúkrunar- fjölskyldu- og sálmeðferðarfræðingur Psychotherapist-marriage and family therapist.

Meðferð áfallastreitu

Áfallastreita er samheiti fyrir sál-líkamleg streituviðbrögð sem fólk þjáist af í kjölfar mjög erfiðrar lífsreynslu— þar sem lífi manns eða annarar manneskju er ógnað eða alvarleg meiðsl verða eða mikil andleg vanlíðan á sér stað.  Mikið andlegt og líkamlegt álag getur einnig leitt til áfallastreitu.

Á undanförnum áratugum hefur orðið til betri skilningur og nákvæmari þekking á því ástandi sem skapast í kjölfar slíkrar reynslu, en ekki eru nema 15 ár síðan þetta fyrirbæri var skilgreint sem sjúkdómsheiti.  Rannsóknir benda til þess að allt að 70% fólks, sem lendir í mjög alvarlegum áföllum, fái áfallastreituröskun einhvern tímann á lífsleiðinni.

Flestir, sem lenda í meiri háttar áföllum eða verða vitni að atburðum sem vekja hjá þeim skelfingu, fá væg einkenni áfallastreitu, sem lagast með tímanum án meðferðar. Það eru t.d. kvíði, svefntruflanir, einbeitingarerfiðleikar, pirringur og reiðiköst, endurupplifun atburðarins í hugsunum eða draumum:

Endurupplifanir:  Ég fæ “flash back” eða sé fyrir mér það sem skeði aftur og aftur, jafnvel þegar ég er að gera eitthvað algerlega ótengt því.  Mig dreymir oft atburðinn og fæ jafnvel martraðir.  Ég bregst óeðlilega sterkt við ef eitthvað kemur upp í dagegu lífi sem  minnir mig á það sem skeði

Flótti:  Ég forðast  eins og heitan eldinn umhverfi, hugsanir, tilfinningar eða samræður sem tengjast því sem ég varð fyrir.

Dofi:  Ég hef ekki áhuga á hlutum sem ég hafði áhuga á áður.  Mér er eins og sama um allt.  Það er eins og ég hafi engar tilfinningar

Kvíði: Ég sef illa og vakna við minnsta þrusk og á það til að vakna upp með andfælum. Er oft pirruð og fæ oftar reiðiköst. það er erfitt að einbeita sér að því sem ég gat gleymt mér við áður. Ég bregst miklu sterkar við öllum áreitum en áður, t.d. mér bregður við minnsta tilefni